Gestum á öllum aldri, gjarnan foreldrum með börnum sínum, er boðið að taka þátt í því að skapa jólatré sem mun verða til sýnis í anddyri safnsins yfir hátíðirnar. Það verður skapað úr tilfallandi afskurði í anda Kristins Pétussonar myndlistarmanns, en list hans er viðfangsefni núverandi sýningar TÓMIÐ, horfin verk Kristins Péturssonar.
„Eðli höggmynda er margþætt og mál þeirra margvíslegt. ... getur vel heppnuð táknmynd verið skemmtilega hnyttin. Sömuleiðis getur nytjaform í höggmynd þjónað svo vel hnitmiðuðum tilgangi sínum, að það vekur þægilega kennd.“ Kristinn Pétursson
Allt efni á staðnum. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Sólveig Aðalsteinsdóttir er myndlistarmaður sem einnig á verk á sýningunni. Auk myndlistarstarfa hefur hún um árabil kennt bæði fullorðnum og börnum í Myndlistaskóla Reykjavíkur.
Þetta er jafnframt síðasta sýningarhelgi ársins þar sem safnið verður lokað frá og með mánudeginum 17. desember en það verður opið á ný frá og með 17. janúar 2013.